Saturday, December 8, 2007

O, Brother where art thou

Ég setti þessa mynd ekki á topp 10 listann en hún á það þó fyllilega skilið. Það eru Coen-bræður sem leikstýra þessari mynd en hún fjallar um 3 fanga á miðri 20. öld í Suðurríkjunum sem ná að strjúka og þeim uppákomum sem þeir lenda í. Allt frá því að vera breytt í froska yfir í að lenda í klóm Ku-Klux-Klan. Þeir ná að gera allt vitlaust þegar þeir flytja lag í útvarpinum og verða vinsælir um öll Bandaríkin. Myndin er vel gerð og Georg Clooney sýnir að hann getur enn þá leikið. Aðrir leikarar standa sig líka með prýði eins og t.d. John Goodman sem KKK-meðlimur. Lögin í myndinni eru mjög góð en þó sérstaklega lagið sem fangarnir flytja í útvarpinu. Skemmtileg og fyndin mynd sem skilur mann eftir í góðu skapi.


Topp 10 (fyrri hluti)

Það er ótrúlega erfitt að gera lista yfir 10 bestu myndirnar og það er fullt af myndum sem ég myndi vilja setja þarna í viðbót. Ég var heldur ekki algjörlega viss um í hvaða röð ég ætti að hafa myndirnar þannig að þessi uppröðun segir ekki neitt. Ég ætla þó að segja stuttlega frá nokkrum af þessum myndum.

Battle Royal


Battle Royal er japönsk mynd sem er ótrúlega skemmtileg þrátt fyrir fjarstæðukenndan en einfaldan söguþráð. Nokkrir skólakrakkar eru settir á einangraða eyju í tilrauna skyni og takmark þeirra er að drepa alla hina krakkana með öllum hugsanlegum vopnum sem þeim er úthlutað. Þetta er blóðug og ofbeldisfull mynd og maður þarf að vera í ákveðnu stuði til að hafa gaman að henni en ég tel han þó geta verið á þessum lista þar sem að þetta er einstaklega áhugaverð mynd.



Lion King

Ef þessi mynd á ekki skilið að vera á þessum lista þá á enginn það. Þrátt fyrir að hafa einungis séð þessa mynd einu sinni þegar ég var 6 ára þá man ég enn eftir henni eins og ég hafi séð hana í gær. Þetta er líka fyrsta myndin sem ég man eftir að hafa séð í bíó. Óþarfi er að rekja söguþráðinn hér en þessi mynd markaði tímamót fyrir gullaldarár Disney-fyrirtækisins og er í hugum margra einhver mesta klassík teiknimyndanna.



Gladiator
Þessi mynd er bókstaflega epísk. Russel Crowe sýnir snilldarleik sem herforinginn Maximus sem er gerður að skylmingaþræl eftir að keisarinn deyr. Hans eina takmark er svo að myrða þann sem lætur myrða fjölskyldu hans. Þessi mynd hefur upp á allt að bjóða sem góð mynd þarf. Stórgóðan leik, ótrúlega flott bardagaatriði, og góða sögu og vel skrifaðar persónur. Russel Crowe er óaðfinnanlegur sem maður sem hefur misst allt og vill bara hefnd. Frábær mynd!


Requiem for a Dream

Þetta er átakanlegasta mynd um eiturlyf sem ég hef séð og fær mann virkilega til að hugsa. Það er frekar langt síðan ég sá myndina svo söguþráðurinn er ekki alveg í fersku minni hjá mér en áhrif hennar sitja föst í mér. Myndin segir frá lífi fjögurra fíkla, eldri konu sem verður háð lyf sem hún fær að læknisráði, syni hennar og kærustunni hans og vini þeirra sem öll eru á kafi í heróíni. Maður hefur séð margar myndir sem reyna að taka á fíkniefnavandanum en þá eru fíklarnir oft gerðir kjánalegir eða fyndnir eða jafnvel töff. Þessi mynd er mjög raunsæ og sýnir allar verstu hliðar þess lífs sem fíknin færir manni. Strax í þessari mynd rífur dópið fíklana niður í svaðið og líf þeirra snýst ávallt um að fá meira. Tónlistin í myndinni er líka flott og stefið sem spilað er oft í gegnum myndina situr enn Þessi mynd lætur engan ósnortin og þeim sem ekki líður illa eftir að hafa horft á þessa mynd hlýtur að vera gjörsamlega hjartalaus.

Boondock Saints

Þessi mynd er á topp 10 einfaldlega vegna þess að hún er svöl. Hún fjallar írska bræður sem segja stríð á hendur glæpamönnum eftir að þeir lenda í veseni við rússnesku mafíuna. Þeir verða það afkasta miklir að FBI fer að eltast við þá og þar er lögregluforinginn frábær persóna túlkuð af William Dafoe. Atriðin í myndinni þar sem bræðurnir slátra glæpamönnum eru ótrúlega svöl þrátt fyrir að vera langt því frá raunsæ. Myndin er bæði spennandi og fyndin og er þess vegna bara hin besta afþreying. Hún skilur mann kannski ekki með hausinn uppfullan af pælingum en hún skilar sínu og á þess vegna fullkomlega rétt á sér á þessu lista.

Beowulf

Ég var frekar forvitinn að sjá hvernig þessi mynd yrði þar sem ég hef aldrei farið í 3D bíó. Ég var með smá efasemdir um að þetta yrði eitthvað almennilegt en annað kom í ljós. Upplifunin af myndinni var ákaflega skemmtileg og maður fékk oft á tilfinninguna að hlutir væru að koma á fleygiferð í áttina að manni. Myndin gerir líka mikið úr því að sýna þrívíddina og myndavélin er þess vegna á fleygiferð allan tímann. Sagan er líka góð og skilar sýnu en þó fékk maður stundum á tilfinninguna að þessi mynd hafi einungis verið gerð í þeim tilgangi að vera flott í þrívídd og ef það er rétt þá tókst það bara mjög vel upp. Ég stóð allavega upp mjög sáttur eftir einhverja mögnuðustu bíósýningu sem ég hef farið á.

Tuesday, December 4, 2007

Big Fish


Sá þessa mynd eftir meistara Tim Burton aftur á ríkissjónvarpinu um daginn. Þessi mynd segir sögu manns sem veit ekkert betra en að segja sögur af sjálfum sér og oftar en ekki eru þær soldið skreyttar. Við fylgjumst með ævi hans eins og hann segir hana og oftar en ekki er hún heldur ótrúverðug. Þessi mynd er skemmtileg og og er uppfull af táknum og hefur að bera mörg einkenni Burtons. Þessi mynd kom mér mjög á óvart þegar ég sá hana fyrst og nær að vera bæði fyndinn og skemmtileg á mjög einlægan hátt. Sagan er skemmtileg og leikurinn góður og Burton sýnir að hann er leikstjóri á heimsmælikvarða.

American gangster


Fór á þessa mynd eftir stærðfræðiprófin. Myndin er í alla staði mjög vel gerð og leikararnir standa sig allir með prýði. Myndin segir frá uppgangi Frank Lucas, blökkumanns sem gerir það gott með sölu á gæða dópi á lágu verði. Hann er gerður mjög viðkunnalegur maður en sú ímynd breytist eftir því sem líður á myndina. Það er stórleikarinn Denzel Washington sem túlkar hann og gerir það mjög vel. Russel Crowe leikur svo einn af heiðarlegum lögreglumönnum sem eftir eru í borginni og sýnir enn aftur hversu mikill eðalleikari hann er. Myndin er byggð á sönnum atburðum en hversu sannir sem atburðir sögunnar eru þá er myndin mjög trúverðug og raunsæ. Sem sagt í stuttu máli frábær mynd með góðu leikaravali sem reif mann upp úr leiðindum sökum stærðfræðiprófs.

Friday, November 30, 2007

Rashomon


Fengum eina asíska til að horfa á núna seinast. Það var meistarverkið Rashomon sem kom Akiru Kurosawa fyrst á kortið. Ég verð að segja að ég varð fyrir örlitlum vonbrigðum með hana og mér finnst hún síst af þeim myndum hans sem ég hef séð. Það er aðallega leikurinn sem fer í taugarnar á mér því leikararnir ofleika oft mikið og gera myndina mjög furðulega. Myndin skartar þó frumlegum söguþræði sem vel má hafa gaman að en í myndinni er sagt frá morði frá nokkrum mismunandi sjónarhornum. Myndi hafði þó gífurleg áhrif í kvikmyndaheiminum og hafa margar myndir verið gerðar þar sem áhorfandinn fær að sjá sjónarhorn nokkurra persóna af sama atburðinum. Sagan er því sterkasti þáttur myndarinnar en afgangurinn er ekki eins góður.

Monday, November 26, 2007

Eigið þér annað epli


Var næstum búinn að gleyma að ég sá þessa mynd á kvikmyndahátíðinni núna fyrr á þessu ári. Hún er frá Íran og ég hafði nokkuð miklar væntingar enda hljómaði lýsingin á myndinni afar áhugaverð. Myndin var svo afar áhugaverð en ekki á þann hátt sem ég bjóst við. Hún var mjög skemmtileg og fyndinn á köflum en líka ótrúlega súrealísk og aðalpersónan er eins vitlaus og hægt er hugsa sér og hugsar um lítið annað en að borða. Hún heldur uppi myndinni enda lítið um fleiri áhugaverðar persónur. Söguþráðurinn er góður og kom á óvart og ýmis atriði í myndinni eru stórfurðuleg. Hljóðið er líka frekar skrítið en öfugt við Sigga Palla þá truflaði það mig frekar lítið og mér fannst það bara frekar fyndið. Myndin er því í heild sinni mjög skemmtileg og kemur virkilega á óvart.

3:10 to Yuma


Ég skellti mér á þessa mynd í bíó um daginn og fannst hún bara þrusugóð. Þetta er endurgerð á eldri mynd með sama titil en titillinn vísar í brottfarartíma lestar sem fer til Yuma. Hún fjallar um Evan sem býður sig fram til að fylgja hinum alræmda Ben Wade til að ná lestinni til Yuma. Á eftir fylgir ræningjaflokkur Wades og Wade er víðsjárverður og það þarf að fylgjast með honum. Ég ætla ekki að segja meira frá söguþræðinum en myndin er mjög vel gerð og Russel Crowe og Christian Bale eru stórgóðir í hlutverkum sínum. Þessi mynd er án efa með betri vestrum sem ég hef séð nýlega og ég mæli eindregið með henni.

Ran


Ég horfði þessa mynd þegar hún var í sjónvarpinu eingöngu vegna þess að ég var nýbúinn að flytja fyrirlestur um Kurosawa. Þessi mynd er nýrri en þær sem ég hafði séð og er gerð eftir þekktu leikriti Shakespears, King Leo. Hún fjallar um konung sem felur völd sín til elsta sonar síns áður en hann deyr til að tryggja að það verði ekki átök. Hann er þó ekki nógu sáttur eftir á því hann lítur enn á sjálfan sig sem konung. Yngsti bróðirinn er þó ekki sáttur og er þess vegna gerður útlægur. Myndin er örlítið langdregin í anda Kurosawa en sagan er þó áhugaverð og það var líka gaman að sjá aðeins nýlegri mynd eftir hann. Þótt myndin sé ekki eins þekkt og aðrar myndir hans tel ég að hún sé alveg góð í samanburði við aðrar myndir þessa japanska leikstjóra.

Akiru Kurosawa


Við horfðum myndirnar Yojimbo og Seven Samurai í tengslum við fyrirlestur okkar um Kurosawa. Ég hafði ekki séð neina mynd eftir hann áður en hafði heyrt góða hluti um þær. Ég varð ekki fyrir vonbrigðum og myndirnar eru báðar í flesta staði mjög góðar. Seven Samurai fjallar um þorp sem verður undir sífelldum árásum frá ræningjahóp og þorpsbúar bregða því á það ráð að fá til sín samúræja til að vernda þorpið. Þessir samúræjar eru af ýmsum toga hafa allir sín sérkenni. Þó er sérstaklega einn sem sker sig úr. Myndin er hæg og snýst allan tímann um yfirvofandi árás á þorpið. Þetta er kannski eini veiki punkturinn í myndinni því myndin er tæpir 3 og hálfur tími. Yojimbo fjallar um samúræja sem kemur í þorp þar sem tvær klíkur ráða ríkjum. Saklausir þorpsbúar fá að kenna á bardögum þeirra og samúræjinn kemur og skakkar leikinn. Hann er einfari og leikur tveimur skjöldum í samskiptum sínum við klíkurnar. Báðar myndirnar höfðu gríðarleg áhrif á seinni myndir og þá sérstaklega ameríska vestra og má meðal annars nefna að báðar myndirnar hafa verið endurgerðar í vestrastíl. Þær eru báðar algjört meistarverk og tvímælalaust skylduáhorf.

The seventh seal


Við horfðum á þessa mynd eftir að hafa heyrt fyrirlestur um Bergman og ég var mjög sáttur við það enda var ég nokkuð forvitinn um hvernig mynd um riddara sem skoraði á dauðann í tafl yrði. Hún stóðst væntingar mínar og var bæði skemmtileg og áhugaverð. Það eru miklar pælingar í þessari mynd og það kemur í ljós að það flýr enginn dauðann. Dauðinn er gerður frekar fyndinn en það er þó kannski bara vegna þess að hann talar sænsku. Riddarinn og samferðamenn hans eru skrautlegur hópur og myndin verður bæði létt og fyndinn á köflum. Á milli eru þó alltaf alvarlegri pælingar um lífið og dauðann og Bergman nær að blanda þessu vel saman.

Notorius

Þessi spennumynd Alfreds Hitchcocks er bara nokkuð góð. Hún fjallar um Aliciu sem þarf að gerast ástkona nasista til að geta gefið upplýsingar til ríkisins. Devlin er sá sem fær hana til að gera þetta eftir að þau verða ástfangin sjálf. Þetta er nokkuð góður söguþráður að vinna út frá og Hitchcock gerir það vel. Hann skapar spennu auðveldlega meðal annars með hröðum klippingum miðað við að myndin er frá 1947. Myndin var tilnefnd til 2 óskarsverðlauna og mér fannst hún mjög góð að mörgu leyti. Hún var þó ekkert meistarastykki en það er líklega vegna þess hversu vanur maður er hröðum klippingum og mikilli spennu í nútíma kvikmyndum.

The cabinet of Dr. Caligari


Þessi mynd er á margan hátt mjög sérstök. Hún er ótrúlega absúrd og endirinn kemur manni virkilega á óvart. Stórleikur hjá þeim sem túlkar Dr. Caligari. Myndin er þó heldur daufleg en í flestum atriðum góð og hún hefur vafalaust verið algjört tímamótaverk á þessum tíma. Þetta er einhvers konar blanda af hryllingsmynd og spennumynd. Caligari er með sýningar en þegar dularfull morð verða í kjölfar þeirra fer bæjarbúa að gruna ýmislegt. Endirinn er svo algjör sprengja sem kemur manni gjörsamlega í opna skjöldu. Ég reyndar missti hálfpartinn af honum og var því ekki allt of vel undirbúinn fyrir hann. Mér fannst myndin þó ekki það góð að mér finnist nauðsynlegt að sjá hann.

Sunday, October 14, 2007

Rótlausir

Hvað eiga þrír menn sameiginlegt þegar þeir fara í ferð til að hitta stúlkuna sem einn þeirra á að giftast. Roman er búinn að ákveða að sonur hans Juri skuli giftast dóttur besta vinar hans. Honum tekst að draga hann með í ferð til að hitta hana og með þeim slæst í för Stano, gamall vinur Romans. Þessi mynd er sprenghlægileg og er það þá helst Stano, sem reynir eins og hann getur að vera harður sígauni, sem heldur fjörinu uppi. Roman er að semja sígaunaepík sem á að vera eins konar goðsögn sígauna. Hann er trúlofaði son sinn þegar hann var fimm ára. Þessi mynd segir frá ferðalagi þeirra og þeim atvikum sem eiga sér stað. Einnig er sögð saga sígaunakóngsins í skáldsögu Romans sem er mjög áhugaverð og skemmtileg saga sem bætir bara við myndina. Í leit sinni að fugli sígaunaandans ferðast hann bæði til himnríkis, (sem er táknað með krana) helvítis og að lokum finnur hann dauðann. Þessi saga er svo snyrtilega fléttuð við aðallsöguna og það kemur mjög vel út. Myndin er í flesta staði vel gerð og það var ekkert sem náði að skemma fyrir mér. Sagan er góð og er dýpri en ég bjóst við og allar persónur fantavel skrifaðar. Sem gamanmynd fær hún feitan plús en einnig sem mynd um ferðalag þriggja manna. Besta mynd sem ég sá á hátíðinni og ég mæli hiklaust með henni.

Þið, lifendur






Ótrúlega áhugaverð mynd í alla staði með sótsvörtum húmor sem ég hafði mjög gamna að. Þetta var ekki týpísk kvikmynd með söguþræði og flækjum heldur meira svona eins og langur grínþáttur. Ég hafði þó nokkuð miklar væntingar fyrir þessari mynd og varð þess vegna fyrir örlitlum vonbrigðum vegna þess hversu illa hún entist. Hún byrjaði alveg frábærlega með bráðfyndnum atriðum þar sem maður hló bókstaflega að því hversu sorglegt fólkið var. Húmorinn var svartari en allt og sumar persónurnar voru alveg frábærar. En þegar líða tók á myndina fór hún að verða hálflangdreginn og ég var hálfpartinn farinn að bíða eftir að komast út. Atriðin urðu langdregnari og maður var hálfpartinn búinn að venjast þessu svarta húmor sem einkenndi myndin. Ástæðan fyrir því hversu langdregin myndin varð má þó rekja til gjörlsamlega kæfandi hita í Tjarnarbíói. Kostulegar persónur og myndatakan voru aðalsmerki myndarinnar og myndatakan var mjög sérstök. Hvert atriði var bara eitt skot og það var ekkert að vera að klippa eða færa myndavélina í hverju skoti. Þetta gerði myndina mjög sérstaka og öðruvísi en kannski líka soldið hæga. Þetta var þó í alla staði mjög góð mynd og vel gerð. Persónurnar voru vel skrifaðar og myndatakan hentaði þessari mynd mjög vel og gaf henni ákveðið andrúmsloft. Í heildina var myndin því afbragsgóð þótt vel hefði mátt stytta hana örlítið og minnka aðeins hitann í salnum.

Wednesday, October 3, 2007

The General


Fyrirfram bjóst við svarthvítri mynd sem væri þögul og þunglynd og var ekki spenntur að þurfa að vera í skólanum til 18 eða svo. Það átti þó eftir að koma í ljós að myndin var í alla staði bráðfyndin og var það aðallega persóna lestarstjórans sem gerði það að verkum. Myndin byggist á hrakförum hans þegar hann fer að bjarga sinni heittelskuðu og þeim uppátækjum sem honum detta í hug. Myndin er vel gerð og má þar nefna atriðið þegar brúin brotnar undan lestinni. Aulahúmorinn í myndinni er í fyrirrúmi og þess vegna held ég að það hafi verið stór kostur að myndin var þögul. Tónlistin í myndinni er mjög góð og oft lýsandi fyrir það sem er að gerast hverju sinni. Í heildina alveg frábær mynd sem opnaði augu mín fyrir eldri myndum sem ég hefði ekki haft eins mikinn áhuga á annars.

Veðramót


Svakaleg mynd sem skilur mann eftir agndofa yfir því hvernig vistheimilin voru. Leikstjórinn, Guðný Halldórsdóttir, notar reynslu sína af því að vinna á svona vistheimili til að skrifa handritið að Veðramótum og er sagan því mjög raunsæ þótt hún sé ekki gerð eftir sönnum atburðum. Myndin er mjög vel gerð og leikmyndin er flott enda gerist myndin á hippatímanum og það sést strax án þess að það sé ýkt enda þekkir Guðný vel til þess hvernig lífið gekk fyrir sig hjá þeim. Leikurinn er líka mjög góður og fá margir ungir leikarar leika sitt fyrsta stóra hlutverk í kvikmynd og ég býst við að sjá meira af þeim í framtíðinni. Hilmir Snær er svo auðvitað mjög góður sem og aðrir leikarar. Sagan er góð og skilur eitthvað eftir sig og sýnir að Guðný er með betri leikstjórum landsins.

American movie


Hvað getur maður sagt um mynd sem fjallar um mann sem er búinn að vera að gera sömu myndina í mörg ár. Varla fer maður að taka hann til fyrirmyndar. Myndin átti sína spretti og var fyndinn á köflum en ég verð að viðurkenna að ég náði ekki að halda athyglinni allan tímann. Mér fannst myndin í raun ekki góð og náði aldrei að fylgjast almennilega með söguþræðinum (sem gæti þó verið afleiðing mikillar þreytu þegar ég horfði á myndina). Myndin var þó áhugaverð og fyndinn og sérstaklega vinur aðalpersónunnar sem var alltaf skakkur og í heildina mjög vitlaus. Það þess vegna kannski ekki skrýtið þótt myndin hans sé ekki enn búinn miðað við aðstoðarlið og leikarana. Í heildina var myndin þó óspennandi og ótrúlega langdregin en það er bara svona.

Astrópía


Það er liðin dálítill tími síðan ég sá þessa mynd en ég man þó alveg ágætlega eftir henni. Hún var í heildina mjög góð og ég skemmti mér vel en gat þó ekki varist því að fá kjánahroll og þá sérstaklega í endabardaganum þar sem allt var frekar gervilegt. Stórmyndir með bardagasenum og eru kannski ekki það sem íslenskir kvikmyndagerðarmenn eru tilbúnir að taka upp á. Húmorinn var þó alltaf á sínum stað og gerði það að verkum að myndin tók sig aldrei alvarlega og það bjargaði myndinni og gerði hana í flesta staði mjög góða. Gaman líka að heyra að leikstjórinn notaði mjög lítið af tölvubrellum og reyndi frekar að redda sér með öðrum leiðum.