Við horfðum myndirnar Yojimbo og Seven Samurai í tengslum við fyrirlestur okkar um Kurosawa. Ég hafði ekki séð neina mynd eftir hann áður en hafði heyrt góða hluti um þær. Ég varð ekki fyrir vonbrigðum og myndirnar eru báðar í flesta staði mjög góðar. Seven Samurai fjallar um þorp sem verður undir sífelldum árásum frá ræningjahóp og þorpsbúar bregða því á það ráð að fá til sín samúræja til að vernda þorpið. Þessir samúræjar eru af ýmsum toga hafa allir sín sérkenni. Þó er sérstaklega einn sem sker sig úr. Myndin er hæg og snýst allan tímann um yfirvofandi árás á þorpið. Þetta er kannski eini veiki punkturinn í myndinni því myndin er tæpir 3 og hálfur tími. Yojimbo fjallar um samúræja sem kemur í þorp þar sem tvær klíkur ráða ríkjum. Saklausir þorpsbúar fá að kenna á bardögum þeirra og samúræjinn kemur og skakkar leikinn. Hann er einfari og leikur tveimur skjöldum í samskiptum sínum við klíkurnar. Báðar myndirnar höfðu gríðarleg áhrif á seinni myndir og þá sérstaklega ameríska vestra og má meðal annars nefna að báðar myndirnar hafa verið endurgerðar í vestrastíl. Þær eru báðar algjört meistarverk og tvímælalaust skylduáhorf.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment