Friday, April 18, 2008

Mannaveiðar

Svona fyrst það er enn ekki búið að gefa manni námseinkunn er alveg eins gott að nýta tímann sem maður ætti að nota til að læra fyrir kvikmyndagerðarprófið í eitthvað aðeins skemmtilegra. Hausinn á manni er uppfullur af sögutöktum og rauðum þráðum og 180° reglum og kominn tími til að hreinsa til.

Mannaveiðar eru íslenskir þættir sem voru sýndir í 4 hlutum. Ég verð að segja að mér fannst þeir bara nokkuð góðir. Þeir allavega náðu að halda manni spenntum og það var engann veginn augljóst hver morðinginn var, allavega ekki fyrst. Það má segja að þættirnir séu undir áhrifum frá dönsku þáttunum Forbrydelsen sem voru sýndir á RÚV þótt handritið sé unnið upp úr bókinni Afturelding. Gísli var ágætur sem pinnstíf lögga sem er hálf einangraður. Maður er alltaf að flashback úr fortíð hans og greinilegt að maður á að finna eitthvað til með honum. Mér fannst það samt ekki takast nógu vel einhverra hluta vegna. Ólafur Darri var aðeins skárri en mér fannst hann líka stundum vera frekar kjánalegur eins og t.d. þegar hann býður mótorhjólagellunn (man ekkert hvað hún heitir) í bíó. Má vera að þetta hafi átt að vera svona og maður hafi þess vegna átt að finna með persónunni en mér fannst það bara ekki virka. Samt var leikurinn alls ekkert slæmur þannig ég veit ekki alveg hvað það var, kannski bara persónunar sjálfar. Þó var samband þeirra tveggja mjög skemmtilegt og líklega það sem reif þá upp í persónugerð. Gaurinn sem Björn lék var heldur ekki að virka nógu vel. Hverjum dettur í hug að hafa svona erkibjána í rannsóknarsveitinni. Að halda að hann sé búinn að leysa málið og ná svo ekki að senda svarið á réttum tíma meikar bara ekkert sens. En ætli bókin hafi ekki bara verið svona ég veit það ekki, hann lék þetta ágætlega.

Mannaveiðar eru samt að öllu leyti mjög gott efni fyrir íslenskt sjónvarp og auka bara á fjölbreytnina. Þeir eru líka mun betri en aðrir íslenskir glæpaþættir sem hafa verið gerðir eins og t.d. Allir litir hafsins eru kaldir sem voru hörmulegir þættir. Það var líka fínt að fá að spjalla við Björn leikstjóra og heyra hans hlið á málinu. Skemmtileg líka sagan um það hvernig þetta afmælisþema átti að vera. Sáttur með að það var samt ekki notað, efast um að það hefði virkað. Nú er bara vonandi að Mannaveiðar verði hvatning til frekari íslenskrar þáttagerðar af þessu tagi.

Wednesday, April 16, 2008

Kvikmyndagerð ´07-´08

Þótt sé svo sem enginn sérstakur áhugamaður um kvikmyndalist eða kvikmyndagerð fannst mér þetta vera langmest spennandi fagið. Og þegar upp er staðið er þetta klárlega skemmtilegasta fagið frá upphafi skólagöngu minnar. Stór orð en engu að síður sönn. Það sem stóð þó klárlega mest upp úr er stuttmyndagerðin og það hefði alveg mátt gera meira úr henni því þótt hún hafi verið mjög krefjandi og tímafrek þá er ég viss um að fleiri eru á sama máli og ég að það mætti allavega reyna að gera meira úr verklega hlutanum. Að vísu var ekkert hægt að klippa fyrr en eftir áramót en það var samt mjög skemmtilegt að gera mynd sem var bara klippt í vél. Myndirnar sem við horfðum á voru kannski ekki alltaf við allra hæfi en það er bara eins og það gengur og ég sá fullt af myndum sem ég hefði líklega aldrei horft á annars og þótti gaman að. Gaman líka að heyra í leikstjórunum tala frá sinni reynslu þótt það hafi verið svekkjandi að Baltasar Kormákur hafi ekki komist þar sem hann er klárlega einn besti leikstjóri okkar Íslendinga. Námið sjálft var svo oftast frekar skemmtilegt og ég var sérstaklega að fíla það hversu frjálslegt þetta var, horfa á stuttmyndir og almennt spjall um hitt og þetta.

Þar kemur lærimeistari okkar, Siggi Palli, til sögunnar. Hann er búinn að vera frábær kennari og valdi góða leið til að gera fagið að því sem það er því það hefði án efa getað verið bæði þurrt og leiðinlegt með öðrum kennara. Það eina sem ég get kannski fundið að þessari grein voru bloggin. Ég veit að ég get lítið sagt þar sem að ég hef bæði verið latur og metnaðarlaus í þessum málefnum en ég hefði þó viljað hafa meiri umsjón með blogginu að hálfu kennarans. T.d. að setja fyrir 1-2 blogg á viku og hafa þetta svona meira í takt við þessa típísku heimavinnu. Ég veit þetta hljómar ógeðslega leiðinlegt en ég held að það hefði hvatt suma til að vinna meira og sitja ekki uppi með milljón blogg í lok annar. Auðvitað er þetta samt alltaf á ábyrgð nemenda þannig að ég veit svo sem ekki alveg hversu mikið það á að mata mann en þetta er allavega mín skoðun. Stigakerfið er líka mjög góð hugmynd en ég held samt að það þyrfti að endurskoða það eitthvað og endurbæta. Annað sem ég hefði líka viljað er að fá verkefni úr námsefninu til að vinna. Aftur hljómar þetta ógeðslega leiðinlegt og eins og ég sé að eyðileggja hið fullkomna fag en staðreyndin er sú að ég hef ekki hugmynd um hvað ég er að fara gera í þessu prófi á laugardaginn.

Annars hefur þetta verið frábært fag sem náði að vekja áhuga minn á kvikmyndum og kvikmyndagerð og þótt það sé ólíklegt að ég leggi þetta fyrir mig þá gæti þetta alltaf orðið ágætis hobbý.

Stóra planið

Þegar ég heyrði að Pétur ætti að fara leika handrukkara var það eitthvað sem ég átti erfitt með að sjá fyrir mér. Allavega áður en ég sá myndina og hélt að hann væri geðveikt harður. Það kom þó annað í ljós og auðvitað er hann ekkert annað en algjör aumingi og "wannabe" handrukkari. Samt gaman að sjá að hann getur leikið eitthvað annað en heilalausan vitleysing þótt þeir leikhæfileikar séu kannski ekki svo miklir. Myndin er sem sagt um handrukkarann Davíð sem er í gengi þar sem hann er ekkert nema bara senditík. Þegar hann svo kynnist grunnskólakennaranum Haraldi lýgur hann því að félögum sínum að þarna sé Mexíkó-Haraldur á ferð, stórhættulegur glæpakóngur. Þetta verður til þess að Davíð kemst ofar í virðingarstiganum og verður mikils metinn. Það sem stendur upp úr í þessari mynd er að mínu mati samband Davíðs og Haralds. Haraldur sem er leikinn af Eggerti Þorleifssyni er furðulegur karakter og maður áttar sig ekki alveg á honum strax. Hann reynir að leiðbeina Davíði í gegnum lífið og verður hálf uppáþrengjandi. Aðrir leikarar eru líka skemmtilegir en það er samt eins og það sé hálfgerður ofleikur í gangi sem eigi að vera. En það er kannski bara af því að maður er ekki vanur að sjá Íslendinga leika einhverja glæpakónga og mér fannst stórleikarinn Ingvar E. bara verða hálfkjánalegur sem leiðtogi hópsins. Eggert stelur klárlega senunni og lífgar upp á myndina. Það var svo bara nýlega að ég fattaði að nafnið á myndinni vísar í kung-fu myndböndin sem Davíð horfir á daginn út og inn en Davíð kallar þau Stóra planið. Hvað pointið var með þessm myndböndum veit ég ekki en þau virkuðu frekar tilgangslaus á mig og þrátt fyrir að það hafi verið nokkuð fyndið að fylgjast með Pétri æfa kung-fu á nærbrókinni inni í stofu hjá sér. Stóra planið er því bara ágæt mynd þótt hún sé engan veginn samanburðarhæf við aðrar íslenskar myndir eins og Brúðguminn eða Veðramót.

Hold up down

Algjör snilld sem endaði í tómu rugli. Ég veit eiginlega ekki alveg hvað ég á að segja um þessa því hún er frekar skrítin í alla staði. Hún er um tvo gaura sem ræna banka í jólasveinabúningum. Eitthvað fer úrskeiðis hjá þeim og þeir neyðast til að læsa hann inni í svona almennings geymsluskáp. Inn í þetta fléttast svo hinir fáránlegustu karakter sem sumir virðast lítið með söguþráðinn að gera en gera myndina mjög áhugaverða og fjöruga á köflum. Sem dæmi má nefna bandóða gaurinn sem vill berja alla til óbóta eða hippann sem frýs svo reyndar og gerir algjöran skandal sem frosinn "krossfestur" hippi. Myndin er ótrúlega fyndin (eitthvað gamanmyndaþema í gangi hjá mér greinilega þessa dagana) en húmorinn er mjög sérstakur og ekki eins og maður á að venjast og greinilegt að þessi mynd kemur lengra að en frá Evrópu eða USA fyrir utan að sjálfsögðu þá staðreynd að allir eru japanskir og tala japönsku. Stíllinn er bara einhvern meginn allt annar og sömuleiðis húmorinn. En ég hef svo sem enga hugmynd um hvort það sé bara þessi mynd sem er svona sérstök. Þessi mynd leit sem sagt út fyrir að verða ein af betri myndum vetrarins. Afhverju þarf hún að enda í svona miklu rugli. Þessi kung-fu atriði á hótelinu og draugarnir voru alls ekki að gera sig. Í fyrsta lagi var þetta algjörlega á skjön við fyrri hluta myndarinnar og í öðru lagi hefði kannski verið fyndið að hafa svaka bardaga sem meikaði ekkert sens ef hann hefði bara ekki verið svona djöfulli langur. Ég hef á tilfinningunni að leikstjóranum hafi fundist þetta ógeðslega svalt en það er það ekki þegar það er greinilegt að atriðin eru ekki raunveruleg. Endirinn var svo tóm tjara og skildi mann eftir frekar pirraðan. Auðvitað var öll myndin algjör steypa og drullumall en það afsakar ekki þennan ömurlega endi. Samt sem áður er þetta mynd sem er alveg þess virði að horfa á og sum atriði í myndinni eru gjörsamlega óborganlega fyndin. Sem sagt góð mynd sem líður fyrir asnalega endi.


Be kind, rewind

Sú hugmynd að endurgera allar þær klassísku myndir sem komið hefur út er hreint út sagt brjáluð. Hvað þá að gera það eftir pöntun. Það er samt sem áður söguþráðurinn í þessari fáránlegu gamanmynd þar sem Jack Black og Mos Def fara á kostum sem Jerry og Mike. Jerry lendir í því að heilinn á honum segulmagnast eftir að hann brýst inn í orkuver. Það verður til að þess að hann eyðileggur allar vídjóspólur á vídjóleigunni sem Mike er að passa fyrir frænda sinn. Í kjölfarið endurgera þeir félagar hina ódauðlegu mynd Ghostbusters á einum degi og eitt leiðir af öðru og þeir enda á að endurgera allt milli himins og jarðar, líka teiknimyndir. Myndin er uppfull af bráðskemmtilegum húmor og hann er ekki eins fyrirsjáanlegur og maður hefði haldið auk þess að sá húmor sem er það er bara einfaldlega bráðfyndinn. Þetta er heldur ekki mynd sem maður á að fara til að komast í djúpar pælingar heldur er þetta létt og þægilegt afþreyingarefni sem virkar stórvel. Þar eru endurgerðu myndirnar eða "the sweded movies" stærsti kosturinn. Þar er gert stólpagrín að klassískum myndum þó án þess eins og það sé verið að hæðast að þeim heldur virkar þetta meira á mig eins og að þetta séu myndir sem leikstjórinn eða handritshöfundurinn er að fíla í botn. Hér er Ghostbusters í höndum þeirra Blacks og Defs og byrtist hún nokkurn veginn svona í myndinni sjálfri:


Þessi mynd er svo sem ekkert meistarstykki fra sjónarhóli kvikmyndalistar. Leikurinn er ekkert afrek og greinlegt að þessi mynd hefur ekki kostað neinar miklar fjárhæðir. En þetta er skemmtileg hugmynd að handriti sem virkar vel á mann og maður getur ekki annað en hlegið að hversu vitlaust það er. Ég læt hérna fylgja trailerinn í lokinn.



Lars and the real girl

Arg... akkúrat þegar maður drullar sér loksins til að byrja að blogga krassar tölvan þegar maður var kominn með ágætis færslu og hún var ekki vistuð, samt er alltaf verið að autosave-a þetta helvíti. En þá er bara að byrja upp á nýtt.....


Lars and the real girl er bara með betri gamanmyndum sem ég hef séð nýlega. Hún er um einfeldninginn Lars sem er hálfsorglegur gaur. Hann býr einn í bílskúrnum hjá bróður sínum og er greinilega mjög heftur á félagslega sviðinu. Hann vill helst ekki tala við fólk og er meira segja meinilla við að skreppa í mat til bróður síns og konunnar hans. Hann er síðan gjörsamlega ómögulegur í að eiga samræður við hitt kynið. Einn daginn dúkkar hann svo upp heima hjá bróður sínum með kynlífsdúkku upp á arminn. Þá fyrst virðast þau fatta hversu alvarlegt þetta ástand var á Lars. Þau leita til læknis og hann segir þeim að þau verði að spila með og láta eins og dúkkan sem er kölluð Bianca sé lifandi manneskja. Þetta endar með því að allur bærinn tekur þátt og Bianca verður smám saman partur af samfélaginu. Lars er einstaklega feiminn og lokaður gæi og þar kemur Ryan Gosling sterkur inn. Hann leikur Lars mjög sannfærandi og var meðal annars tilnefndur til Golden Glope. Handritið var líka tilnefnt til fjölda verðlauna og þar á meðal Óskarsins. Enda er margt gott að segja um þetta handrit. Það er ekki uppfullt af kynlífsbröndurum sem maður hefur séð í öllum unglingamyndum þótt það bjóði að nokkru leyti upp á það. Þvert á móti er samband Lars við kynlífsdúkkuna einungis tilfinningalegt og það gengur meira að segja svo langt að þau fara að rífast auk þess sem Bianca fær vinnu í bænum og fleira. Mér fannst þessi mynd geðveikt fyndinn og þá sérstaklega þessi vandræðalegu augnablik þar sem að Lars þorir varla að horfa upp og maður ætti í raun að vorkenna honum. Það er líka mjög fyndið hversu eðlilegt það er fyrir Lars að Bianca sé í kring og hvað allir bæjarbúar taka henni vel og hérna er smá klipp þar sem Bianca fær bæði vinnu og er tekinn inn í félagslífið í bænum:


Þetta er sem sagt í alla staði frábær gamanmynd sem ég mæli eindregið með.

Tuesday, April 15, 2008

21

Ég hafði heyrt eitthvað um þetta svindl í 21 í blöðunum og umfjöllun um þessa mynd og var þess vegna smá forvitinn að fá að vita meira út á hvað þetta svindl í fjárhættuspilinu 21 gekk. Eftir að hafa síðan skoðað gagnrýni herra Pajdaks um myndina fór ég þó með þeim fyrirvara að þessi mynd segði manni nákvæmlega ekki neitt og væri bara frekar mikill Hollywood mynd. Var við einhverju öðru að búast. Ég verð að segja að ég er nokkuð sammála Robba með flest allt varðandi myndina og ég ætla því ekkert að endurtaka það sem hann sagði. Hún er fín á köflum en maður var alveg búinn að sjá þennan endi fyrir. Ég hefði líka viljað fá skemmtilegri persónur. Það að láta einhvern mömmustrák og erkiproffa breytast í ofurtöffara sem veðjar háum upphæðum hægri vinstri finnst mér engann veginn vera að virka og mér er alveg sama þótt þetta hafi allt verið bráðgáfaðir krakkar sem tóku þátt í þessu í veruleikanum þá er ég viss um að þeir hafi ekki verið svona. Auk þess efast ég um að öryggisverðirnir í spilavítunum hafi verið svona típískir vondir kallar. Ég veit vel að þessi mynd er bara byggð á sönnum atburðum og margt er aðlagað að því að gera þetta áhorfsvænna en ég hefði samt viljað sjá eitthvað meira raunhæft. Þessi ástarsaga sem er inn á milli er líka frekar leiðinleg og hefði alveg mátt missa sín því hún virkaði eins og algjört uppfyllingarefni á mig. Þrátt fyrir þetta er 21 alls ekki léleg mynd. Það er ákveðin skemmtun í því að fylgjast með svindlinu þrátt fyrir að það sé tóm tjara (sjá hjá Robba) og Kevin Spacey er ágætur sem gamall svindlari sem leiðbeinir og stýrir hópnum. Myndin er því ágæt að mörgu leyti en ég hefði sennilega haft meira gaman að henni ef þetta hefði verið heimildarmynd. Ekki það að ég sé forfallinn 21 spilari heldur hefði það bara verið mun áhugaverðara að öllu leyti held ég.