Saturday, December 8, 2007

O, Brother where art thou

Ég setti þessa mynd ekki á topp 10 listann en hún á það þó fyllilega skilið. Það eru Coen-bræður sem leikstýra þessari mynd en hún fjallar um 3 fanga á miðri 20. öld í Suðurríkjunum sem ná að strjúka og þeim uppákomum sem þeir lenda í. Allt frá því að vera breytt í froska yfir í að lenda í klóm Ku-Klux-Klan. Þeir ná að gera allt vitlaust þegar þeir flytja lag í útvarpinum og verða vinsælir um öll Bandaríkin. Myndin er vel gerð og Georg Clooney sýnir að hann getur enn þá leikið. Aðrir leikarar standa sig líka með prýði eins og t.d. John Goodman sem KKK-meðlimur. Lögin í myndinni eru mjög góð en þó sérstaklega lagið sem fangarnir flytja í útvarpinu. Skemmtileg og fyndin mynd sem skilur mann eftir í góðu skapi.


Topp 10 (fyrri hluti)

Það er ótrúlega erfitt að gera lista yfir 10 bestu myndirnar og það er fullt af myndum sem ég myndi vilja setja þarna í viðbót. Ég var heldur ekki algjörlega viss um í hvaða röð ég ætti að hafa myndirnar þannig að þessi uppröðun segir ekki neitt. Ég ætla þó að segja stuttlega frá nokkrum af þessum myndum.

Battle Royal


Battle Royal er japönsk mynd sem er ótrúlega skemmtileg þrátt fyrir fjarstæðukenndan en einfaldan söguþráð. Nokkrir skólakrakkar eru settir á einangraða eyju í tilrauna skyni og takmark þeirra er að drepa alla hina krakkana með öllum hugsanlegum vopnum sem þeim er úthlutað. Þetta er blóðug og ofbeldisfull mynd og maður þarf að vera í ákveðnu stuði til að hafa gaman að henni en ég tel han þó geta verið á þessum lista þar sem að þetta er einstaklega áhugaverð mynd.



Lion King

Ef þessi mynd á ekki skilið að vera á þessum lista þá á enginn það. Þrátt fyrir að hafa einungis séð þessa mynd einu sinni þegar ég var 6 ára þá man ég enn eftir henni eins og ég hafi séð hana í gær. Þetta er líka fyrsta myndin sem ég man eftir að hafa séð í bíó. Óþarfi er að rekja söguþráðinn hér en þessi mynd markaði tímamót fyrir gullaldarár Disney-fyrirtækisins og er í hugum margra einhver mesta klassík teiknimyndanna.



Gladiator
Þessi mynd er bókstaflega epísk. Russel Crowe sýnir snilldarleik sem herforinginn Maximus sem er gerður að skylmingaþræl eftir að keisarinn deyr. Hans eina takmark er svo að myrða þann sem lætur myrða fjölskyldu hans. Þessi mynd hefur upp á allt að bjóða sem góð mynd þarf. Stórgóðan leik, ótrúlega flott bardagaatriði, og góða sögu og vel skrifaðar persónur. Russel Crowe er óaðfinnanlegur sem maður sem hefur misst allt og vill bara hefnd. Frábær mynd!


Requiem for a Dream

Þetta er átakanlegasta mynd um eiturlyf sem ég hef séð og fær mann virkilega til að hugsa. Það er frekar langt síðan ég sá myndina svo söguþráðurinn er ekki alveg í fersku minni hjá mér en áhrif hennar sitja föst í mér. Myndin segir frá lífi fjögurra fíkla, eldri konu sem verður háð lyf sem hún fær að læknisráði, syni hennar og kærustunni hans og vini þeirra sem öll eru á kafi í heróíni. Maður hefur séð margar myndir sem reyna að taka á fíkniefnavandanum en þá eru fíklarnir oft gerðir kjánalegir eða fyndnir eða jafnvel töff. Þessi mynd er mjög raunsæ og sýnir allar verstu hliðar þess lífs sem fíknin færir manni. Strax í þessari mynd rífur dópið fíklana niður í svaðið og líf þeirra snýst ávallt um að fá meira. Tónlistin í myndinni er líka flott og stefið sem spilað er oft í gegnum myndina situr enn Þessi mynd lætur engan ósnortin og þeim sem ekki líður illa eftir að hafa horft á þessa mynd hlýtur að vera gjörsamlega hjartalaus.

Boondock Saints

Þessi mynd er á topp 10 einfaldlega vegna þess að hún er svöl. Hún fjallar írska bræður sem segja stríð á hendur glæpamönnum eftir að þeir lenda í veseni við rússnesku mafíuna. Þeir verða það afkasta miklir að FBI fer að eltast við þá og þar er lögregluforinginn frábær persóna túlkuð af William Dafoe. Atriðin í myndinni þar sem bræðurnir slátra glæpamönnum eru ótrúlega svöl þrátt fyrir að vera langt því frá raunsæ. Myndin er bæði spennandi og fyndin og er þess vegna bara hin besta afþreying. Hún skilur mann kannski ekki með hausinn uppfullan af pælingum en hún skilar sínu og á þess vegna fullkomlega rétt á sér á þessu lista.

Beowulf

Ég var frekar forvitinn að sjá hvernig þessi mynd yrði þar sem ég hef aldrei farið í 3D bíó. Ég var með smá efasemdir um að þetta yrði eitthvað almennilegt en annað kom í ljós. Upplifunin af myndinni var ákaflega skemmtileg og maður fékk oft á tilfinninguna að hlutir væru að koma á fleygiferð í áttina að manni. Myndin gerir líka mikið úr því að sýna þrívíddina og myndavélin er þess vegna á fleygiferð allan tímann. Sagan er líka góð og skilar sýnu en þó fékk maður stundum á tilfinninguna að þessi mynd hafi einungis verið gerð í þeim tilgangi að vera flott í þrívídd og ef það er rétt þá tókst það bara mjög vel upp. Ég stóð allavega upp mjög sáttur eftir einhverja mögnuðustu bíósýningu sem ég hef farið á.

Tuesday, December 4, 2007

Big Fish


Sá þessa mynd eftir meistara Tim Burton aftur á ríkissjónvarpinu um daginn. Þessi mynd segir sögu manns sem veit ekkert betra en að segja sögur af sjálfum sér og oftar en ekki eru þær soldið skreyttar. Við fylgjumst með ævi hans eins og hann segir hana og oftar en ekki er hún heldur ótrúverðug. Þessi mynd er skemmtileg og og er uppfull af táknum og hefur að bera mörg einkenni Burtons. Þessi mynd kom mér mjög á óvart þegar ég sá hana fyrst og nær að vera bæði fyndinn og skemmtileg á mjög einlægan hátt. Sagan er skemmtileg og leikurinn góður og Burton sýnir að hann er leikstjóri á heimsmælikvarða.

American gangster


Fór á þessa mynd eftir stærðfræðiprófin. Myndin er í alla staði mjög vel gerð og leikararnir standa sig allir með prýði. Myndin segir frá uppgangi Frank Lucas, blökkumanns sem gerir það gott með sölu á gæða dópi á lágu verði. Hann er gerður mjög viðkunnalegur maður en sú ímynd breytist eftir því sem líður á myndina. Það er stórleikarinn Denzel Washington sem túlkar hann og gerir það mjög vel. Russel Crowe leikur svo einn af heiðarlegum lögreglumönnum sem eftir eru í borginni og sýnir enn aftur hversu mikill eðalleikari hann er. Myndin er byggð á sönnum atburðum en hversu sannir sem atburðir sögunnar eru þá er myndin mjög trúverðug og raunsæ. Sem sagt í stuttu máli frábær mynd með góðu leikaravali sem reif mann upp úr leiðindum sökum stærðfræðiprófs.