Tuesday, April 15, 2008

Look around you: stuttmyndagerð

Þegar við loksins fengum vélina í hendur höfðum við einungis eina helgi til að taka allt heila klabbið upp og þar sem að sögusviðið var bústaður var frekar mikið vesen að finna helgi þar sem allir komust. Það endaði þó allt vel þrátt fyrir hálfgerða fýluferð á föstudeginum upp í bústað þar sem við náðum bara að taka upp efni fyrir introið (sem tók reyndar slatta tíma). Á laugardaginn komu svo aðalleikararnir í hús og við gátum byrjað af alvöru. Myndin okkar fjallar um 4 gaura sem fara upp í bústað, verða drukknir og vakna svo daginn eftir og sjá að einn þeirra liggur dauður á gólfinu. Þeir saka hver annan um að hafa drepið hann og enda á því að slátra hver öðrum. Sá "dauði" vaknar svo upp frá rotinu og fattar ekki neitt og kveikir á sjónvarpinu. Handritið var frá upphafi mjög kjánalegt (ekki endilega á slæman hátt) og það voru nokkrir gallar í handritinu sem við þurftum að laga til á staðnum. Auk þess voru öll samtöl samin á staðnum og þetta gerði lengdi alla vinnuna. Þetta gékk þó allt frekar vel þótt það hafi komið upp smá ágreiningur um endinn (geðveikt súrealískur endir þar sem að einhver 5. maður átti að koma og drepa þann seinasta (Danna) og vekja svo þann sem lá rotaður eða eitthvað í þá áttina vs. sá endir sem var notaður). Við tók svo klipping nokkrum seinna og það gekk allt bara þokkalega vel og ég verð að segja að ég varð bara nokkuð sáttur með myndina. Hún var frekar kjánaleg eins og ég bjóst við en það gekk alveg upp og hún var bara frekar fyndin og hún var klárlega betri en myndin sem við gerðum á haustönn og það er nokkuð víst að við höfum lært ýmislegt við gerð þessara tveggja mynda.

No country for old men

Ég fór með mjög miklar væntingar á þessa mynd og bjóst við miklu enda búinn að heyra mikið lof um hana og var þess vegna svolítið áhyggjufullur um að hún yrði ekki jafn ógeðslega góð og ég bjóst við. Þessar áhyggjur voru gjörsamlega óþarfar. No country for old men er klárlega með betri með myndum sem ég hef séð. Fyrir utan það að vera svöl að öllu leyti er Anton Chigurh svo frábærlega vel skrifaður karakter og í höndum Javiers Bardems verður þessi morðmaskína ein af eftirminnilegri persónum kvikmyndasögunnar. Það sést hvernig geðveikin skín úr augunum á honum og Bardem nær að koma honum í hóp ekki ómerkari manna eins og Svarthöfða og Hans Gruber úr Die Hard. Chigurh er tilfinningalaus morðvél sem eltist við Llewelyn Moss (Josh Brolin) eftir að sá síðarnefndi tekur tösku sem inniheldur 2 milljónir dollara. Sú eftirför er frekar sóðaleg enda ekki við öðru að búast þegar sá sem eltir er vopnaður haglabyssu með hljóðdeyfi og svo einhvers konar loftbyssu þar sem hann drepur fórnarlömb sín með því að láta pinna skjótast í hausinn á þeim með loftþrýstingi. Josh Brolin er líka góður sem frekar sóðalegur sveitadurgur sem er tilbúinn að fórna lífi og limum til að halda í peningana. Tommy Lee Jones kemur líka sterkur inn sem fógetinn á staðnum sem er orðinn hálfþreyttur á glæpunum í samfélaginu og samasem búinn að gefast upp. Javier Bardem stelur þó tvímælalaust senunni. Samtölin í myndinni eru líka ótrúlega vel skrifuð og í raun myndin sjálf og persónusköpunin er í toppi og greinilegt að þeir Coen-bræður hafa frábært tak á þeim sérstaka stíl sem einkennir myndirnar þeirra. Myndin vann til ferna óskarsverðlauna og þar á meðal fyrir bestu mynd og bestu leikstjórn. Myndin vann auk þess fjölda annarra verðlauna á kvikmyndahátíðum. Þessi mynd situr klárlega uppi sem besta mynd sem ég hef séð í langan tíma og fer án efa á topp 10 listann.




Monday, April 14, 2008

Brúðguminn

Frekar langt síðan við fórum á þessa mynd svo hún er ekki alveg í fersku minni en það er um að gera að reyna.

Brúðguminn í leikstjórn Baltasar Kormák er byggð á leikritinu Ívanov eftir Tsjekhov. Baltasar leikstýrði líka leikritinu Ívanov í Þjóðleikhúsinu á sama tíma en ég sá það reyndar ekki. Ég hafði nokkra fordóma áður en ég fór á þessa mynd þar sem að ég hafði lítið heyrt um hana og hélt að þetta væri háalvarlegt drama þar sem að það væri ekki þverfótaðfyrir ástarþríhyrningum, svikum, og uppgjöri á fortíðinni. Vissulega koma allir þessir þættir fram í myndinni að nokkru leyti en engann veginn á þann hátt sem ég hafði búist við. Brúðgumanum er sem sagt best lýst sem gamanmynd. Myndin fjallar um Jón sem er vægast sagt ótrúlega leiðinlegur maður. Hann er greinilega þreyttur á lífinu og tilraun hans til að komast burt frá hinu daglega amstri endar ekki betur en svo að konan hans fer frá honum eftir að hann heldur framhjá henni með Þóru sem er fyrrverandi nemandi hans. Myndin á sér stað þegar þau eru að fara gifta sig og inn í það fléttast alls kyns vandamál sem ég ætla ekki að fara út í hér. Baltasar sýnir hér enn og aftur að hann er með betri íslenskum leikstjórum og myndin er vel gerð í alla staði. Nú þekki ég ekki leikritið þannig að ég get ekki borið þetta saman en fyrir mér var þetta bara mjög skemmtileg mynd sem kom mér í gott skap. Ég veit svo sem að það hljóta að vera rosa djúpar pælingar á bak við allt í þessari mynd en ég nenni eiginlega ekkert að vera pæla í því. Þessi mynd var fyrst og fremst afþreyingarefni og það frekar gott. Leikur er líka stórgóður og Hilmir Snær stórgóður sem einhver mest óspennandi náungi sem ég hef kynnst en aðrir leikarar koma líka sínu mjög vel til skila. Ólafur Darri var stórskemmtilegur sem gamall félagi Jóns sem og aðrar persónur sem lífga upp á hið tilbreytingarlausa líf sem Jón lifir. Í stuttu máli stórgóð íslensk mynd sem kemur manni í gott skap.

Saturday, December 8, 2007

O, Brother where art thou

Ég setti þessa mynd ekki á topp 10 listann en hún á það þó fyllilega skilið. Það eru Coen-bræður sem leikstýra þessari mynd en hún fjallar um 3 fanga á miðri 20. öld í Suðurríkjunum sem ná að strjúka og þeim uppákomum sem þeir lenda í. Allt frá því að vera breytt í froska yfir í að lenda í klóm Ku-Klux-Klan. Þeir ná að gera allt vitlaust þegar þeir flytja lag í útvarpinum og verða vinsælir um öll Bandaríkin. Myndin er vel gerð og Georg Clooney sýnir að hann getur enn þá leikið. Aðrir leikarar standa sig líka með prýði eins og t.d. John Goodman sem KKK-meðlimur. Lögin í myndinni eru mjög góð en þó sérstaklega lagið sem fangarnir flytja í útvarpinu. Skemmtileg og fyndin mynd sem skilur mann eftir í góðu skapi.


Topp 10 (fyrri hluti)

Það er ótrúlega erfitt að gera lista yfir 10 bestu myndirnar og það er fullt af myndum sem ég myndi vilja setja þarna í viðbót. Ég var heldur ekki algjörlega viss um í hvaða röð ég ætti að hafa myndirnar þannig að þessi uppröðun segir ekki neitt. Ég ætla þó að segja stuttlega frá nokkrum af þessum myndum.

Battle Royal


Battle Royal er japönsk mynd sem er ótrúlega skemmtileg þrátt fyrir fjarstæðukenndan en einfaldan söguþráð. Nokkrir skólakrakkar eru settir á einangraða eyju í tilrauna skyni og takmark þeirra er að drepa alla hina krakkana með öllum hugsanlegum vopnum sem þeim er úthlutað. Þetta er blóðug og ofbeldisfull mynd og maður þarf að vera í ákveðnu stuði til að hafa gaman að henni en ég tel han þó geta verið á þessum lista þar sem að þetta er einstaklega áhugaverð mynd.



Lion King

Ef þessi mynd á ekki skilið að vera á þessum lista þá á enginn það. Þrátt fyrir að hafa einungis séð þessa mynd einu sinni þegar ég var 6 ára þá man ég enn eftir henni eins og ég hafi séð hana í gær. Þetta er líka fyrsta myndin sem ég man eftir að hafa séð í bíó. Óþarfi er að rekja söguþráðinn hér en þessi mynd markaði tímamót fyrir gullaldarár Disney-fyrirtækisins og er í hugum margra einhver mesta klassík teiknimyndanna.



Gladiator
Þessi mynd er bókstaflega epísk. Russel Crowe sýnir snilldarleik sem herforinginn Maximus sem er gerður að skylmingaþræl eftir að keisarinn deyr. Hans eina takmark er svo að myrða þann sem lætur myrða fjölskyldu hans. Þessi mynd hefur upp á allt að bjóða sem góð mynd þarf. Stórgóðan leik, ótrúlega flott bardagaatriði, og góða sögu og vel skrifaðar persónur. Russel Crowe er óaðfinnanlegur sem maður sem hefur misst allt og vill bara hefnd. Frábær mynd!


Requiem for a Dream

Þetta er átakanlegasta mynd um eiturlyf sem ég hef séð og fær mann virkilega til að hugsa. Það er frekar langt síðan ég sá myndina svo söguþráðurinn er ekki alveg í fersku minni hjá mér en áhrif hennar sitja föst í mér. Myndin segir frá lífi fjögurra fíkla, eldri konu sem verður háð lyf sem hún fær að læknisráði, syni hennar og kærustunni hans og vini þeirra sem öll eru á kafi í heróíni. Maður hefur séð margar myndir sem reyna að taka á fíkniefnavandanum en þá eru fíklarnir oft gerðir kjánalegir eða fyndnir eða jafnvel töff. Þessi mynd er mjög raunsæ og sýnir allar verstu hliðar þess lífs sem fíknin færir manni. Strax í þessari mynd rífur dópið fíklana niður í svaðið og líf þeirra snýst ávallt um að fá meira. Tónlistin í myndinni er líka flott og stefið sem spilað er oft í gegnum myndina situr enn Þessi mynd lætur engan ósnortin og þeim sem ekki líður illa eftir að hafa horft á þessa mynd hlýtur að vera gjörsamlega hjartalaus.

Boondock Saints

Þessi mynd er á topp 10 einfaldlega vegna þess að hún er svöl. Hún fjallar írska bræður sem segja stríð á hendur glæpamönnum eftir að þeir lenda í veseni við rússnesku mafíuna. Þeir verða það afkasta miklir að FBI fer að eltast við þá og þar er lögregluforinginn frábær persóna túlkuð af William Dafoe. Atriðin í myndinni þar sem bræðurnir slátra glæpamönnum eru ótrúlega svöl þrátt fyrir að vera langt því frá raunsæ. Myndin er bæði spennandi og fyndin og er þess vegna bara hin besta afþreying. Hún skilur mann kannski ekki með hausinn uppfullan af pælingum en hún skilar sínu og á þess vegna fullkomlega rétt á sér á þessu lista.

Beowulf

Ég var frekar forvitinn að sjá hvernig þessi mynd yrði þar sem ég hef aldrei farið í 3D bíó. Ég var með smá efasemdir um að þetta yrði eitthvað almennilegt en annað kom í ljós. Upplifunin af myndinni var ákaflega skemmtileg og maður fékk oft á tilfinninguna að hlutir væru að koma á fleygiferð í áttina að manni. Myndin gerir líka mikið úr því að sýna þrívíddina og myndavélin er þess vegna á fleygiferð allan tímann. Sagan er líka góð og skilar sýnu en þó fékk maður stundum á tilfinninguna að þessi mynd hafi einungis verið gerð í þeim tilgangi að vera flott í þrívídd og ef það er rétt þá tókst það bara mjög vel upp. Ég stóð allavega upp mjög sáttur eftir einhverja mögnuðustu bíósýningu sem ég hef farið á.

Tuesday, December 4, 2007

Big Fish


Sá þessa mynd eftir meistara Tim Burton aftur á ríkissjónvarpinu um daginn. Þessi mynd segir sögu manns sem veit ekkert betra en að segja sögur af sjálfum sér og oftar en ekki eru þær soldið skreyttar. Við fylgjumst með ævi hans eins og hann segir hana og oftar en ekki er hún heldur ótrúverðug. Þessi mynd er skemmtileg og og er uppfull af táknum og hefur að bera mörg einkenni Burtons. Þessi mynd kom mér mjög á óvart þegar ég sá hana fyrst og nær að vera bæði fyndinn og skemmtileg á mjög einlægan hátt. Sagan er skemmtileg og leikurinn góður og Burton sýnir að hann er leikstjóri á heimsmælikvarða.