Wednesday, April 16, 2008

Stóra planið

Þegar ég heyrði að Pétur ætti að fara leika handrukkara var það eitthvað sem ég átti erfitt með að sjá fyrir mér. Allavega áður en ég sá myndina og hélt að hann væri geðveikt harður. Það kom þó annað í ljós og auðvitað er hann ekkert annað en algjör aumingi og "wannabe" handrukkari. Samt gaman að sjá að hann getur leikið eitthvað annað en heilalausan vitleysing þótt þeir leikhæfileikar séu kannski ekki svo miklir. Myndin er sem sagt um handrukkarann Davíð sem er í gengi þar sem hann er ekkert nema bara senditík. Þegar hann svo kynnist grunnskólakennaranum Haraldi lýgur hann því að félögum sínum að þarna sé Mexíkó-Haraldur á ferð, stórhættulegur glæpakóngur. Þetta verður til þess að Davíð kemst ofar í virðingarstiganum og verður mikils metinn. Það sem stendur upp úr í þessari mynd er að mínu mati samband Davíðs og Haralds. Haraldur sem er leikinn af Eggerti Þorleifssyni er furðulegur karakter og maður áttar sig ekki alveg á honum strax. Hann reynir að leiðbeina Davíði í gegnum lífið og verður hálf uppáþrengjandi. Aðrir leikarar eru líka skemmtilegir en það er samt eins og það sé hálfgerður ofleikur í gangi sem eigi að vera. En það er kannski bara af því að maður er ekki vanur að sjá Íslendinga leika einhverja glæpakónga og mér fannst stórleikarinn Ingvar E. bara verða hálfkjánalegur sem leiðtogi hópsins. Eggert stelur klárlega senunni og lífgar upp á myndina. Það var svo bara nýlega að ég fattaði að nafnið á myndinni vísar í kung-fu myndböndin sem Davíð horfir á daginn út og inn en Davíð kallar þau Stóra planið. Hvað pointið var með þessm myndböndum veit ég ekki en þau virkuðu frekar tilgangslaus á mig og þrátt fyrir að það hafi verið nokkuð fyndið að fylgjast með Pétri æfa kung-fu á nærbrókinni inni í stofu hjá sér. Stóra planið er því bara ágæt mynd þótt hún sé engan veginn samanburðarhæf við aðrar íslenskar myndir eins og Brúðguminn eða Veðramót.