Tuesday, April 15, 2008

21

Ég hafði heyrt eitthvað um þetta svindl í 21 í blöðunum og umfjöllun um þessa mynd og var þess vegna smá forvitinn að fá að vita meira út á hvað þetta svindl í fjárhættuspilinu 21 gekk. Eftir að hafa síðan skoðað gagnrýni herra Pajdaks um myndina fór ég þó með þeim fyrirvara að þessi mynd segði manni nákvæmlega ekki neitt og væri bara frekar mikill Hollywood mynd. Var við einhverju öðru að búast. Ég verð að segja að ég er nokkuð sammála Robba með flest allt varðandi myndina og ég ætla því ekkert að endurtaka það sem hann sagði. Hún er fín á köflum en maður var alveg búinn að sjá þennan endi fyrir. Ég hefði líka viljað fá skemmtilegri persónur. Það að láta einhvern mömmustrák og erkiproffa breytast í ofurtöffara sem veðjar háum upphæðum hægri vinstri finnst mér engann veginn vera að virka og mér er alveg sama þótt þetta hafi allt verið bráðgáfaðir krakkar sem tóku þátt í þessu í veruleikanum þá er ég viss um að þeir hafi ekki verið svona. Auk þess efast ég um að öryggisverðirnir í spilavítunum hafi verið svona típískir vondir kallar. Ég veit vel að þessi mynd er bara byggð á sönnum atburðum og margt er aðlagað að því að gera þetta áhorfsvænna en ég hefði samt viljað sjá eitthvað meira raunhæft. Þessi ástarsaga sem er inn á milli er líka frekar leiðinleg og hefði alveg mátt missa sín því hún virkaði eins og algjört uppfyllingarefni á mig. Þrátt fyrir þetta er 21 alls ekki léleg mynd. Það er ákveðin skemmtun í því að fylgjast með svindlinu þrátt fyrir að það sé tóm tjara (sjá hjá Robba) og Kevin Spacey er ágætur sem gamall svindlari sem leiðbeinir og stýrir hópnum. Myndin er því ágæt að mörgu leyti en ég hefði sennilega haft meira gaman að henni ef þetta hefði verið heimildarmynd. Ekki það að ég sé forfallinn 21 spilari heldur hefði það bara verið mun áhugaverðara að öllu leyti held ég.