Tuesday, April 15, 2008

No country for old men

Ég fór með mjög miklar væntingar á þessa mynd og bjóst við miklu enda búinn að heyra mikið lof um hana og var þess vegna svolítið áhyggjufullur um að hún yrði ekki jafn ógeðslega góð og ég bjóst við. Þessar áhyggjur voru gjörsamlega óþarfar. No country for old men er klárlega með betri með myndum sem ég hef séð. Fyrir utan það að vera svöl að öllu leyti er Anton Chigurh svo frábærlega vel skrifaður karakter og í höndum Javiers Bardems verður þessi morðmaskína ein af eftirminnilegri persónum kvikmyndasögunnar. Það sést hvernig geðveikin skín úr augunum á honum og Bardem nær að koma honum í hóp ekki ómerkari manna eins og Svarthöfða og Hans Gruber úr Die Hard. Chigurh er tilfinningalaus morðvél sem eltist við Llewelyn Moss (Josh Brolin) eftir að sá síðarnefndi tekur tösku sem inniheldur 2 milljónir dollara. Sú eftirför er frekar sóðaleg enda ekki við öðru að búast þegar sá sem eltir er vopnaður haglabyssu með hljóðdeyfi og svo einhvers konar loftbyssu þar sem hann drepur fórnarlömb sín með því að láta pinna skjótast í hausinn á þeim með loftþrýstingi. Josh Brolin er líka góður sem frekar sóðalegur sveitadurgur sem er tilbúinn að fórna lífi og limum til að halda í peningana. Tommy Lee Jones kemur líka sterkur inn sem fógetinn á staðnum sem er orðinn hálfþreyttur á glæpunum í samfélaginu og samasem búinn að gefast upp. Javier Bardem stelur þó tvímælalaust senunni. Samtölin í myndinni eru líka ótrúlega vel skrifuð og í raun myndin sjálf og persónusköpunin er í toppi og greinilegt að þeir Coen-bræður hafa frábært tak á þeim sérstaka stíl sem einkennir myndirnar þeirra. Myndin vann til ferna óskarsverðlauna og þar á meðal fyrir bestu mynd og bestu leikstjórn. Myndin vann auk þess fjölda annarra verðlauna á kvikmyndahátíðum. Þessi mynd situr klárlega uppi sem besta mynd sem ég hef séð í langan tíma og fer án efa á topp 10 listann.