Monday, April 14, 2008

Brúðguminn

Frekar langt síðan við fórum á þessa mynd svo hún er ekki alveg í fersku minni en það er um að gera að reyna.

Brúðguminn í leikstjórn Baltasar Kormák er byggð á leikritinu Ívanov eftir Tsjekhov. Baltasar leikstýrði líka leikritinu Ívanov í Þjóðleikhúsinu á sama tíma en ég sá það reyndar ekki. Ég hafði nokkra fordóma áður en ég fór á þessa mynd þar sem að ég hafði lítið heyrt um hana og hélt að þetta væri háalvarlegt drama þar sem að það væri ekki þverfótaðfyrir ástarþríhyrningum, svikum, og uppgjöri á fortíðinni. Vissulega koma allir þessir þættir fram í myndinni að nokkru leyti en engann veginn á þann hátt sem ég hafði búist við. Brúðgumanum er sem sagt best lýst sem gamanmynd. Myndin fjallar um Jón sem er vægast sagt ótrúlega leiðinlegur maður. Hann er greinilega þreyttur á lífinu og tilraun hans til að komast burt frá hinu daglega amstri endar ekki betur en svo að konan hans fer frá honum eftir að hann heldur framhjá henni með Þóru sem er fyrrverandi nemandi hans. Myndin á sér stað þegar þau eru að fara gifta sig og inn í það fléttast alls kyns vandamál sem ég ætla ekki að fara út í hér. Baltasar sýnir hér enn og aftur að hann er með betri íslenskum leikstjórum og myndin er vel gerð í alla staði. Nú þekki ég ekki leikritið þannig að ég get ekki borið þetta saman en fyrir mér var þetta bara mjög skemmtileg mynd sem kom mér í gott skap. Ég veit svo sem að það hljóta að vera rosa djúpar pælingar á bak við allt í þessari mynd en ég nenni eiginlega ekkert að vera pæla í því. Þessi mynd var fyrst og fremst afþreyingarefni og það frekar gott. Leikur er líka stórgóður og Hilmir Snær stórgóður sem einhver mest óspennandi náungi sem ég hef kynnst en aðrir leikarar koma líka sínu mjög vel til skila. Ólafur Darri var stórskemmtilegur sem gamall félagi Jóns sem og aðrar persónur sem lífga upp á hið tilbreytingarlausa líf sem Jón lifir. Í stuttu máli stórgóð íslensk mynd sem kemur manni í gott skap.