Sunday, October 14, 2007

Rótlausir

Hvað eiga þrír menn sameiginlegt þegar þeir fara í ferð til að hitta stúlkuna sem einn þeirra á að giftast. Roman er búinn að ákveða að sonur hans Juri skuli giftast dóttur besta vinar hans. Honum tekst að draga hann með í ferð til að hitta hana og með þeim slæst í för Stano, gamall vinur Romans. Þessi mynd er sprenghlægileg og er það þá helst Stano, sem reynir eins og hann getur að vera harður sígauni, sem heldur fjörinu uppi. Roman er að semja sígaunaepík sem á að vera eins konar goðsögn sígauna. Hann er trúlofaði son sinn þegar hann var fimm ára. Þessi mynd segir frá ferðalagi þeirra og þeim atvikum sem eiga sér stað. Einnig er sögð saga sígaunakóngsins í skáldsögu Romans sem er mjög áhugaverð og skemmtileg saga sem bætir bara við myndina. Í leit sinni að fugli sígaunaandans ferðast hann bæði til himnríkis, (sem er táknað með krana) helvítis og að lokum finnur hann dauðann. Þessi saga er svo snyrtilega fléttuð við aðallsöguna og það kemur mjög vel út. Myndin er í flesta staði vel gerð og það var ekkert sem náði að skemma fyrir mér. Sagan er góð og er dýpri en ég bjóst við og allar persónur fantavel skrifaðar. Sem gamanmynd fær hún feitan plús en einnig sem mynd um ferðalag þriggja manna. Besta mynd sem ég sá á hátíðinni og ég mæli hiklaust með henni.

Þið, lifendur






Ótrúlega áhugaverð mynd í alla staði með sótsvörtum húmor sem ég hafði mjög gamna að. Þetta var ekki týpísk kvikmynd með söguþræði og flækjum heldur meira svona eins og langur grínþáttur. Ég hafði þó nokkuð miklar væntingar fyrir þessari mynd og varð þess vegna fyrir örlitlum vonbrigðum vegna þess hversu illa hún entist. Hún byrjaði alveg frábærlega með bráðfyndnum atriðum þar sem maður hló bókstaflega að því hversu sorglegt fólkið var. Húmorinn var svartari en allt og sumar persónurnar voru alveg frábærar. En þegar líða tók á myndina fór hún að verða hálflangdreginn og ég var hálfpartinn farinn að bíða eftir að komast út. Atriðin urðu langdregnari og maður var hálfpartinn búinn að venjast þessu svarta húmor sem einkenndi myndin. Ástæðan fyrir því hversu langdregin myndin varð má þó rekja til gjörlsamlega kæfandi hita í Tjarnarbíói. Kostulegar persónur og myndatakan voru aðalsmerki myndarinnar og myndatakan var mjög sérstök. Hvert atriði var bara eitt skot og það var ekkert að vera að klippa eða færa myndavélina í hverju skoti. Þetta gerði myndina mjög sérstaka og öðruvísi en kannski líka soldið hæga. Þetta var þó í alla staði mjög góð mynd og vel gerð. Persónurnar voru vel skrifaðar og myndatakan hentaði þessari mynd mjög vel og gaf henni ákveðið andrúmsloft. Í heildina var myndin því afbragsgóð þótt vel hefði mátt stytta hana örlítið og minnka aðeins hitann í salnum.

Wednesday, October 3, 2007

The General


Fyrirfram bjóst við svarthvítri mynd sem væri þögul og þunglynd og var ekki spenntur að þurfa að vera í skólanum til 18 eða svo. Það átti þó eftir að koma í ljós að myndin var í alla staði bráðfyndin og var það aðallega persóna lestarstjórans sem gerði það að verkum. Myndin byggist á hrakförum hans þegar hann fer að bjarga sinni heittelskuðu og þeim uppátækjum sem honum detta í hug. Myndin er vel gerð og má þar nefna atriðið þegar brúin brotnar undan lestinni. Aulahúmorinn í myndinni er í fyrirrúmi og þess vegna held ég að það hafi verið stór kostur að myndin var þögul. Tónlistin í myndinni er mjög góð og oft lýsandi fyrir það sem er að gerast hverju sinni. Í heildina alveg frábær mynd sem opnaði augu mín fyrir eldri myndum sem ég hefði ekki haft eins mikinn áhuga á annars.

Veðramót


Svakaleg mynd sem skilur mann eftir agndofa yfir því hvernig vistheimilin voru. Leikstjórinn, Guðný Halldórsdóttir, notar reynslu sína af því að vinna á svona vistheimili til að skrifa handritið að Veðramótum og er sagan því mjög raunsæ þótt hún sé ekki gerð eftir sönnum atburðum. Myndin er mjög vel gerð og leikmyndin er flott enda gerist myndin á hippatímanum og það sést strax án þess að það sé ýkt enda þekkir Guðný vel til þess hvernig lífið gekk fyrir sig hjá þeim. Leikurinn er líka mjög góður og fá margir ungir leikarar leika sitt fyrsta stóra hlutverk í kvikmynd og ég býst við að sjá meira af þeim í framtíðinni. Hilmir Snær er svo auðvitað mjög góður sem og aðrir leikarar. Sagan er góð og skilur eitthvað eftir sig og sýnir að Guðný er með betri leikstjórum landsins.

American movie


Hvað getur maður sagt um mynd sem fjallar um mann sem er búinn að vera að gera sömu myndina í mörg ár. Varla fer maður að taka hann til fyrirmyndar. Myndin átti sína spretti og var fyndinn á köflum en ég verð að viðurkenna að ég náði ekki að halda athyglinni allan tímann. Mér fannst myndin í raun ekki góð og náði aldrei að fylgjast almennilega með söguþræðinum (sem gæti þó verið afleiðing mikillar þreytu þegar ég horfði á myndina). Myndin var þó áhugaverð og fyndinn og sérstaklega vinur aðalpersónunnar sem var alltaf skakkur og í heildina mjög vitlaus. Það þess vegna kannski ekki skrýtið þótt myndin hans sé ekki enn búinn miðað við aðstoðarlið og leikarana. Í heildina var myndin þó óspennandi og ótrúlega langdregin en það er bara svona.

Astrópía


Það er liðin dálítill tími síðan ég sá þessa mynd en ég man þó alveg ágætlega eftir henni. Hún var í heildina mjög góð og ég skemmti mér vel en gat þó ekki varist því að fá kjánahroll og þá sérstaklega í endabardaganum þar sem allt var frekar gervilegt. Stórmyndir með bardagasenum og eru kannski ekki það sem íslenskir kvikmyndagerðarmenn eru tilbúnir að taka upp á. Húmorinn var þó alltaf á sínum stað og gerði það að verkum að myndin tók sig aldrei alvarlega og það bjargaði myndinni og gerði hana í flesta staði mjög góða. Gaman líka að heyra að leikstjórinn notaði mjög lítið af tölvubrellum og reyndi frekar að redda sér með öðrum leiðum.